Samdráttur í sölu iPhone síma nam um 1% fyrstu þrjá mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra og seldi fyrirtækið um 50,8 milljón síma á ársfjórðungnum að því er fram kemur í yfirlýsingu fyrirtækisins.

Tim Cook, forstjóri fyrirtækisins, sagði ástæðuna vera að viðskiptavinir væru að bíða eftir nýjum síma fyrirtækisins sem kemur á markað síðar á árinu. Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu um 2% á eftirmarkaði í kjölfar tilkynningarinnar, en áður höfðu hlutabréfin náð methæðum vegna væntinga um betri afkomu.

Tekjur jukust heilt yfir

Tilkynnti Apple um 4,6% aukningu tekna fyrir fyrirtækið allt, eða 52,9 milljarðar dala, eða sem samsvarar 5.631 milljarði króna, sem er aðeins undir væntingum greinenda.

Minnkandi sala á iPhone símum jafnaðist út með auknum þjónustutekjum, þar á meðal frá Apple Pay, iCloud og frá App store, en salan þar jókst um 18% og nam hún 7 milljörðum dala. Benti Cooc einnig á aukningu í sölu á Apple Watch úrinu, sem og á AirPod spjaldtölvunni og Beats heyrnartólum.

Væntanlegur sími á árinu dregur úr eftirspurn

Þrátt fyrir minnkandi sölu jukust tekjurnar af iPhone sölunni, eða um 1%, svo þær námu 33,2 milljörðum dala. Var það vegna aukinnar sölu á stærri og dýrari iPhone 7 Plus símanum. Í frétt BBC um málið segir að miklar væntingar séu um næsta iPhone síma, nú þegar hyllir undir 10 ára afmæli hans.

Ársfjórðungshagnaður fyrirtækisins nam 11 milljörðum dala, sem er 4,9% aukning frá sama tíma fyrir ári. Tilkynnti fyrirtæki um að arðgreiðslur myndu nema 50 milljörðum en sjóðir fyrirtækisins hafa náð methæðum, eða 256,8 milljörðum dala, því sem jafngildir 27.334 milljörðum króna.