Margir lögðu leið sína í ÁTVR í gær þegar sala á jólabjór hófst, en aldrei hafa fleiri tegundir jólabjórs verið í boði.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að mikið hafi verið að gera í áfengisverslunum í gær. Sölutölur munu liggja fyrir eftir helgi og þá verður hægt að sjá hvort salan fari betur af stað en í fyrra.

Í ár verður ÁTVR með 29 tegundir af jólabjór til sölu, samanborið við 26 tegundir í fyrra og 24 árið 2012. Jólabjórinn verður sífellt vinsælli, en sala hans hefur vaxið um rúm 5.500% frá því hann kom fyrst á markað fyrir 25 árum.