Söluherferð Coca-Cola, sem felst í því að setja nöfn á einstaklingum á flöskurnar, hefur orðið til þess að sala á gosdrykkjum fyrirtækisins í Bandaríkjunum hefur aukist um 2% frá árinu á undan. Eru kaupendur hvattir til að njóta drykkjarins með einhverjum öðrum.

Þetta þykir merkilegt í ljósi þess að undanfarin ár hefur sala á gosdrykkjum dregist saman ár frá ári og neytendur kaupa nú frekar orkudrykki og bragðbætt vatn.

Nafnaherferðin er ekki alfarið ný af nálinni, því hún var fyrst reynd í Ástralíu fyrir þremur árum og jókst kókneysla ungmenna við það um 7%.