*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Innlent 21. júlí 2016 10:44

Sala lúxusbíla eykst enn

Mercedes-Benz er aftur orðinn mest seldi lúxusbíll í heimi eftir tíu ára fjarveru á toppnum.

Ritstjórn
Mercedes-Benz er mest seldi lúxusbíllinn í fyrsta sinn frá 2004.

Sala lúxusbíla í heiminum hélt áfram að aukast á fyrri helmingi ársins. Mesti vöxturinn hefur verið í Kína og það er orðinn stærsti markaður flestra bílaframleiðenda. Þýskir bílaframleiðendur verma þrjú efstu sætin eftir sem áður og hafa tæplega tvöfaldað söluna frá árinu 2008.

Flestir lúxusbílaframleiðendur hafa breikkað mjög vöruframboð sitt frá því um aldamótin, sem skýrir aukna sölu. Sókn þeirra hefur verið mest í smærri bílum og er mismunandi hversu breitt vöruframboðið er, en það er mjög svipað hjá þýsku risunum þremur. Það hefur einnig breikkað hjá þeim minni, en er samt mun minna en hjá þýsku fyrirtækjunum. Skilgreining á lúxusbílum er því ekki eins skýr og áður fyrr.

MercedesBenz seldi flesta bíla fyrstu sex mánuðina, eða rétt rúmlega eina milljón. Benz er því komið á ný í fyrsta sæti heimslistans og er þar í fyrsta sinn frá 2004 þegar BMW hirti sætið og hefur haldið því, utan áranna 2011-2014 þegar Audi var mesti seldi bíllinn. BMW er skammt undan Mercedes-Benz, og Audi einnig. Það er því aðeins hálfleikur í keppni ársins.

Mestur vöxturinn er hjá Jaguar-Land Rover en 84% vöxtur var í sölu Jaguarbíla og 14% í sölu Land Rover bifreiða eða 22% hjá framleiðandanum í heild. Salan hjá Mercedes-Benz óx um 12,1% sem skýrir hvers vegna þeir eru komnir fram úr BMW, sem var með 5,8% aukningu, og Audi með 5,6% aukningu. Sala á Volvo jókst um 10,5% á heimsvísu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.

Stikkorð: Audi Volvo Benz lúxusbílar