Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, segir í samtali við Fréttablaðið að sala á íbúðum á Hafnartorgi hafi verið meiri á undanförnum vikum heldur en síðasta hálfa árið á undan.

„Það er rétt að við höfum verið að selja íbúðir á Hafnartorgi. Það hefur líka verið góð sala hjá okkur í Vinastræti í Urriðaholti og Skektuvogur í Vogabyggð fer ágætlega af stað. Heilt yfir hefur verið nokkuð góð sala síðustu vikur. Við teljum að það stafi annars vegar af minni óvissu og aukinni bjartsýni nú þegar faraldurinn virðist að mestu genginn yfir. Hins vegar eru það vaxtalækkanirnar og hagstæð íbúðalán sem nú bjóðast og hafa jákvæð áhrif á markaðinn,“ segir hann.

Á Hafnartorginu er ÞG Verk með samanlagt 70 íbúðir í fimm byggingum.