Sala Marels á öðrum ársfjórðungi 2007 nam 72,6 milljónum evra samanborið við 46,6 milljónir á sama tíma árið áður. Salan jókst því um 56% á milli ára. Hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 7,4 milljónum evra samanborið við 0.8 milljónir evra árið áður.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að rekstrarhagnaður EBIT á öðrum ársfjórðungi 2007 var 3,4 milljónir evra sem er 4,7% af tekjum samanborið við 4,3 milljónir í fyrra. Gjaldfærður einskiptiskostnaður var á ársfjórðungnum um 1.7 milljón evra. Ekki er gert ráð fyrir frekari einskiptiskostnaði vegna sameiningar félaganna.

Hlutabréf í hollenska fyrirtækinu Stork NV eru færð á markaðsvirði og koma fram í 6,6 milljóna hagnaði í hlutdeildarfélagi.

Sala fyrstu sex mánuði ársins 2007 nam 144,9 milljónum evra samanborið við 79,1 milljón sem er um 83% aukning frá fyrra ári. Proforma vöxtur sölu á tímabilinu var um 3,4%.

Rekstrarhagnaður EBIT á fyrri hluta árins 2007 var 6,7 milljónir samanborið við 4,8 milljónir árið áður. Gjaldfærður einskiptiskostnaður vegna samþættingar nam um 5 milljónum evra á fyrri hluta ársins. Rekstrarhagnaður
EBIT, fyrir einskiptiskostnað var 11,6 milljónir (8% af sölu) samanborið við 6% árið áður.

Hagnaður á tímabilinu frá janúar til júní 2007 var 8,5 milljónir evra samanborið við 1,3 milljónir árið 2006.

Handbært fé frá rekstri nam 14,4 milljónum evra, en var neikvætt um 6,7 milljónir á fyrri hluta ársins 2006. Handbært fé í lok tímabilsins nam 49,6 milljónum evra.

Eigið fé nam 158,3 milljónum evra og eiginfjárhlutfall var 40,8% í lok júní 2007. Félagið er vel fjármagnað til þess að takast á við áframhaldandi ytri vöxt.

Hörður Arnarson, forstjóri segir í tilkynningu: ?Afkoma fyrirtækisins er ásættanleg í ljósi umfangsmikillar samþættingarvinnu sem veldur bæði beinum einskiptiskostnaði og minni framleiðni vegna innri
vinnu. Að teknu tilliti til einskiptiskostnaði er 8% EBIT á fyrri árshelmingi í samræmi við markmið félagsins um að 10% EBIT náist á næsta ári. Ánægjulegt er að sjóðstreymi fyrirtækisins er sterkt.

Samþætting á rekstri Marel, Carnitech, Scanvægt og AEW/Delford undir merkjum Marel Food Systems gengur samkvæmt áætlun. Vel heppnaðri samþættingu á sölu- og markaðskerfum fyrirtækjanna lauk að mestu á síðasta ársfjórðungi. Nýtt skipulag mun slípast og festa sig í sessi á næstu mánuðum. Þótt umtalsverður árangur hafi náðst í samþættingu fyrirtækjanna er enn mikið verk óunnið í að nýta þau samlegðaráhrif sem sameining félaganna bíður upp á.

Marel Food Systems er vel fjármagnað til þess að takast á við þau tækifæri sem bjóðast á næstu misserum og með öflugan stuðning stærstu hluthafa. Órói á fjármálamörkuðum getur falið í sér tækifæri í ytri vexti fyrir vel fjármögnuð skráð félög.?