Nýskráningar metanbíla drógust saman um 58% á fyrstu átta mánuðum ársins samanborið við sama tíma í fyrra. Bílum sem var breytt í metanbíla fækkaði um 77% á milli ára.

Stefán Ásgrímsson, ritstjóri hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, segir í samtali við Fréttablaðið að hægt sé að rekja ástæðuna að miklu leyti rekja til breytinga á vörugjöldum bifreiða. Árið 2011 var gjöldum breytt þannig að þau miðuðu ekki lengur við stærð bílvéla heldur mengun í útblæstri.„Áður voru metanbílar án vörugjalda vegna þess að gjaldið fór eftir stærð vélarinnar og þessir bílar voru undir settu viðmiði þess tíma. Með breytingunum hefur það gerst að nú er um fleiri ökutæki að ræða sem eru undir nýja mengunarviðmiðinu, og því hafa metanbílar fengið aukna samkeppni,“ segir Stefán í samtali við blaðið. Hann segir jafnframt að ekki hvorki þurfi að greiða vörugjöld né virðisaukaskatt af rafbílum sem kosta undir sex milljónum.

Sala á metanbílum jókst mjög mikið í fyrra og á sama tíma jókst sala metangass. Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, sem er eini framleiðandi metangass í landinu, segir að sala hafi fjórfaldast milli áranna 2010 og 2012. Það sem af er ári hafi salan nokkurn veginn staðið í stað. "Þarna gæti verið komin skýring á því af hverju salan virðist hafa náð ákveðnu jafnvægi. Þessi þróun, að vörugjöldin verði til þess að eftirspurn minnki, er ekki góð því við getum framleitt meira af metani en okkar metanbílafloti þarf," segir Björn.