Sala á Nook-lestölvum undir merkjum Barnes & Noble olli miklum vonbrigðum á þriðja ársfjórðungi. Salan dróst saman um heil 26% á sama tíma og sala á rafbókum og tengdum efni fyrir lestölurnar jókst um 6,8%. Fjórðungurinn hófst í nóvember og lauk í enda janúar.

Barnes & Noble er stærsta bókaverslun Bandaríkjanna. Bandaríska dagblaðið Los Angeles Times segir verslunina ekki hafa komið vel inn í árið enda fyrirtækið tapað 6,1 milljón dala, jafnvirði 760 milljóna íslenskra króna, á fjórðungnum. TIl samanburðar nam hagnaðurinn 52 milljónum dala. Afkoman skrifast að stórum hluta á lélegt uppgjör þeirrar deildar bókarisans sem vinnur við stafrænt efni. Þar nam tapið á fjórðungnum 190 milljónum dala, jafnvirði 23,6 milljörðum króna. Þetta er meira en tvöfalt verri afkoma en á sama tíma í fyrra þegar deildin skilaði tapi upp á 83 milljónir dala. Blaðið segir á vef sínum að stjórnendur Barnes & Noble brýni niðurskurðarhnífinn þessa stundina, bæði eigi að hagræða í deildinni og lækka verð á lestölvum.

Tekjur Barnes & Noble námu 2,2 milljörðum dala á fjórðungnum og er það 8,8% samdráttur á milli ára. Rekstrarhagnaðurinn dróst mikið saman en hann nam 55 milljónum dala sem er 63% samdráttur. Til samanburðar nam hagnaðurinn 150 milljónum dala fyrir ári.