Stjórn Nýherja hefur ákveðið að fresta sölu á fyrirtækinu Tempo, en í náinni framtíð mun hún meta hvort álitlegt getur talist að endurskoða ákvörðun um sölu og selda hlutdeild. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Stjórn Nýherja kannaði nýlega áhuga fjárfesta á því að festa kaup á 25% hlut í Tempo. Niðurstaðan var að fjöldi aðila, bæði innlendir og erlendir, lýstu yfir áhuga á að eignast meirihluta í Tempo. Sala á meirihluta í Tempo var ekki það sem lagt var upp með og ákvað stjórn Nýherja því að fresta sölunni.

Endurskoðunin mun ekki hafa nein áhrif á rekstraráætlanir Tempo en horfur eru góðar. Tekjur félagsins voru 5,7 milljónir bandaríkjadala á árinu 2014 og jukust um 85% milli ára. Tekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi jukust einnig um 57% frá fyrra ári.