*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 23. mars 2019 10:02

Sala nýrra bíla fer hægt af stað

Fyrstu tvo mánuði tímabilsins 2016 til 2019 áttu fæstar nýskráningar fólksbifreiða sér stað fyrstu tvo mánuði núverandi árs.

Sveinn Ólafur Melsted
Haraldur Guðjónsson

Árið 2016 voru alls 20.767 fólksbílar nýskráðir hér á landi, árið 2017 voru þeir orðnir 25.850 og í fyrra voru alls 21.210 bílar nýskráðir. Því er ljóst að fjöldi nýskráðra fólksbíla jókst um tæplega 25% milli 2016 og 2017 en svo dróst fjöldi nýskráninga hins vegar saman um tæplega 18% milli 2017 og 2018. Þetta kemur fram í upplýsingum um fjölda nýskráðra fólksbifreiða frá janúar 2016 til og með febrúar 2019 sem Viðskiptablaðið tók saman. Stuðst var við gögn frá Samgöngustofu.

Þegar fjöldi nýskráninga fyrir fyrstu tvo mánuðir tímabilsins 2016 til 2019 er skoðaður, kemur í ljós að fæstar nýskráningar fólksbifreiða áttu sér stað fyrstu tvo mánuði núverandi árs, en samtals voru nýskráningarnar 1905. Til samanburðar voru nýskráningar árið 2016 samtals 2.404, árið 2017 voru þær 3.059 og í fyrra voru þær 3.098. Því voru 1.193 færri fólksbílar nýskráðir á umræddu tímabili í ár heldur en í fyrra og nemur samdrátturinn því 39%.

Sala nýrra bíla gengur í sveiflum

Óðinn Valdimarsson, verkefnastjóri hjá Bílgreinasambandinu, segir að áætlanir hafi gert ráð fyrir minnkandi sölu á fólksbílum á þessu ári en að raunsalan fyrstu tvo mánuði ársins sé um 20% undir áætlun. Þó megi segja að salan hafi verið ágæt miðað við aðstæður og að ýmislegt beri að hafa í huga þegar salan er skoðuð í samanburði við fyrri ár.

„Markaðurinn er  að koma úr þremur  af stærstu bílasöluárum sögunnar. Sagan sýnir  að sala nýrra bíla gengur í sveiflum og því viðbúið að það yrði áframhaldandi minnkun núna á milli ára," segir hann.

Þá hafi, fyrir utan almennar hækkanir á bílverði sökum gengisþróunar,  einnig verið ýmsir óvissuþættir til staðar síðustu misseri sem hafi hugsanlega haft áhrif á bílkaupendur.  Megi þar helst nefna stöðu flugfélaganna og möguleg áhrif þeirra á ferðaþjónustuna og þar af leiðandi efnahagslífið í heild sinni, breytingar sem áttu að eiga sér stað varðandi  vörugjöld  bifreiða í tengslum við  útblástursmælingar, „afmæli" hrunsins og svo  yfirvofandi kjarasamningar og áhrif þeirra. Þá megi loks nefna afnám ívilnunar vörugjalda til bílaleiga, sem sé líklegt til að draga úr bílakaupum þeirra. Áhrif þessara hluta séu þó sennilega bara tímabundin og það sé ekkert sem bendi til annars en að bílasala næstu árin verði áfram með ágætum.

„Þetta breytir ekki því að bílaflotinn þarf að halda áfram að endurnýja sig og mun gera það, en meðal annars hefur þróun á bensín- og díselvélum  og einnig  sífelld aukning á úrvali bíltegunda með nýjum orkugjöfum  ýtt  undir áhuga fólks og fyrirtækja á að skoða nýja bíla og endurnýja. Við vonumst til þess að árið endi með ágætum, sérstaklega eftir því sem óvissuþættir í efnahagslífinu skýrast, þó það  verði hugsanlega minni bílasala  en  undanfarin ár sem hafa eins og áður segir verið mjög stór - enda margt spennandi að gerast á bílamarkaðnum um þessar mundir," segir Óðinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér