Hátt í 7900 nýir bílar hafa verið skráðir á árinu sem er að líða sem er um 55% aukning frá fyrra ári, en á árinu 2011 voru skráðar alls 5.054 fólksbifreiðar. Bílaleigur keyptu um 40% af nýjum bílum á árinu. Mest hefur verið skráð af Toyota bílum eða 1329 bílar, næst kemur Volkswagen með 1052 bíla og loks Kia með 751 bíl. Þetta er mesta sala Kia frá upphafi hér á landi. Þessi þrjú mest seldu merki á landinu voru með samanlegt um 37% hlutdeild eða hartnær fjóra af hverjum tíu bílum sem skráðir voru, skv. skráningartölum umferðarstofu fyrir árið 2012.

,,Árið 2012 er að mínu mati ágætt ár,ef miðað er við árin 2008 - 2011, en við horfum samt sem áður í augu við þá staðreynd að bílasala á enn talsvert í land með að uppfylla eðlilega endurnýjunarþörf, sem ég tel liggja á bilinu frá 12 - 14.000 bíla sölu á ári,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

,,Mikil breyting hefur orðið á markaðnum frá því sem var þegar almennir tollflokkar voru bara tveir. Í dag eru tollflokkar bíla 10 talsins, þar sem vörugjöld eru reiknuð á bíla alfarið eftir mengunargildum og þar með eyðslu. Sala á bílum í hagstæðari tollflokkkum hefur því aukist og sala á bílum sem menga meira hefur minnkað. Ég tel að þegar almenningur fer að versla bíla í auknum mæli, þá sjáum við þessa þróun verða enn hraðari,“ segir Jón Trausti ennfremur.

Aðspurður um mikla sölu Kia bíla á árinu svarar Jón Trausti: ,,Þetta eru mjög ánægjulegar fréttir en koma raunar ekkert mjög á óvart þar sem Kia hefur verið að koma fram með spennandi og fallega endurhannaða bíla á síðustu mánuðum. Þá eru bílarnir einnig sparneytnir og umhverfismildir og það er það sem bíleigendur leita í mjög auknum mæli eftir.“

Tegund           Seldir bílar           Markaðshlutdeild

TOYOTA                   1329                      16,9%
VOLKSWAGEN          1063                    13,5%
KIA                               751                      9,6%
SKODA                        685                      8,7%
SUZUKI                        535                     6,8%
FORD                          464                      5,9%
NISSAN                        457                     5,8%
CHEVROLET               434                     5,5%
HYUNDAI                      398                    5,1%
HONDA                         281                    3,6%
Aðrir bílar                      1460                  18,6%
Samtals skráðir bílar     7857               100,0%