Sala nýrra fólksbíla í júlí jókst um 44,4% miðað við júlí í fyrra, en alls voru skráðir 1480 nýir fólksbílar nú en voru 1025 í fyrra. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Þrátt fyrir þessa aukningu hefur sala nýrra bíla dregist saman um 31,8% það sem af er ári borið saman við sama tímabil í fyrra, þar sem 5673 nýir fólksbílar hafa selst í ár en voru 8319 í fyrra.

Ljóst er að mikill samdráttur er á milli ára sem rekja má til heimsfaraldurs COVID-19. Fyrst og fremst eru áhrifin á ferðaþjónustuna en mun færri bílaleigubílar hafa verið nýskráðir á fyrri helmingi ársins í ár miðað við sama tímabil síðasta árs. Hafa 1634 nýir bílaleigubílar verið skráðir núna á fyrstu 7 mánuðum þessa árs en voru 3993 á sama tíma í fyrra, sem gerir 59,1% samdrátt á milli ára.

Aðra sögu er hinsvegar að segja af einstaklingum og almennum fyrirtækjum því til þeirra hafa selst 3993 nýir fólksbílar það sem af er ári og er það samdráttur upp á 6,1% miðað við sama tíma í fyrra.