Bandaríska varnarmálafyrirtækið Lockheed Martin hagnaðist um 942 milljónir dollara á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Jókst hagnaður um 5% frá sama tímabili í fyrra samkvæmt uppgjöri félagsins fyrir annan ársfjórðung. Samkvæmt frétt Reuters hækkaði fyrirtækið sölu- og afkomuspá sína fyrir árið 2017. Gerir fyrirtækið ráð fyrir því að hagnaður á hlut verði á bilinu 12,3 til 12,6 dollarar á hlut.

Samkvæmt tilkynningu frá Lockheed Martin jókst sala á orrustuflugvélum um 20% á örðum ársfjórðungi en framleiðsla á orustuflugvélum er mikilvægasta deild fyrirtækisins. Heildarsala fyrirtækisins á tímabilinu nam 12,7 milljörðum dollara. Er söluaukningin rakinn til aukinnar sölu á F-35 flugvélinni. Stjórnvöld í Bandaríkjunum greindu frá því í síðustu viku að herinn myndi bæta við sig þrettán F-35 vélum. Þá hefur breski herinn einnig pantað 24 nýjar vélar sem verða teknar í notkun á næsta ári.

Þrátt fyrir að afkoman á öðrum ársfjórðungi hafi verið betri en búist var við hefur gengi hlutabréfa Lockheed Martin lækkað um 0,3% það sem af er degi eftir að hafa hækkað um 1,1 í byrjun dags. Stendur gengi bréfanna nú í 287,34 dollurum á hlut. Fyrirtækið er stærsti birgir hergagna fyrir bandaríska herinn.