*

laugardagur, 25. september 2021
Erlent 13. september 2021 11:22

Sala Primark undir væntingum

Sóttvarnatakmarkanir á lykilmörkuðum hafa sett strik í reikninginn undanfarna mánuði, enda rekur Primark ekki vefverslun.

Ritstjórn
Sala Primark líður fyrir sóttvarnatakmarkanir.
epa

Associated British Foods (AB Foods), móðurfélag Primark verslananna sem eru flestum Íslendingum kunnar, segir útlit fyrir að sala Primark á fjórða rekstrarfjórðungi, sem líkur 18. september, verði 17% lægri en á sama tímabili fyrir tveimur árum. Reuters fjallar um málið.

Salan mun vera talsvert undir væntingum, en á þriðja fjórðungi var salan 3% lægri en á sama tímabili ársins 2019. Samkvæmt AB Foods hefur salan liðið fyrir sóttvarnatakmarkanir á lykilmörkuðum undanfarna mánuði, það eru Bretland og Spánn.

Á Bretlandi gekk sala brösulega undir lok júní og í júlí vegna fjölda Breta sem einangruðu sig vegna tilkynninga  frá smitrakningarappi, þar í landi kallað „pingdemic" í daglegu tali. Á Spáni hafði fækkun erlendra ferðamanna neikvæð áhrif á söluna.

Primark selur vörur sínar ekki í gegnum vefinn og treystir því á heimsóknir í verslanir. Fjármálastjóri keðjunnar, John Bason, segir þó Primark halda markaðshlutdeild sinni og er bjartsýnn fyrir jólavertíðinni.

Þrátt fyrir vonbrigði með sölu á fjórðungnum hækkar afkomuspá móðurfélagsins, AB Foods, fyrir rekstrarárið. Hækkunin er rakin til sterkrar afkomuframlegðar í tískuiðnaðinum vegna færri stöðugilda og lægri rekstrarkostnaðar, auk góðs árangur í matvæla- og sykurgeiranum.