Associated British Foods (AB Foods), móðurfélag Primark verslananna sem eru flestum Íslendingum kunnar, segir útlit fyrir að sala Primark á fjórða rekstrarfjórðungi, sem líkur 18. september, verði 17% lægri en á sama tímabili fyrir tveimur árum. Reuters fjallar um málið.

Salan mun vera talsvert undir væntingum, en á þriðja fjórðungi var salan 3% lægri en á sama tímabili ársins 2019. Samkvæmt AB Foods hefur salan liðið fyrir sóttvarnatakmarkanir á lykilmörkuðum undanfarna mánuði, það eru Bretland og Spánn.

Á Bretlandi gekk sala brösulega undir lok júní og í júlí vegna fjölda Breta sem einangruðu sig vegna tilkynninga  frá smitrakningarappi, þar í landi kallað „pingdemic" í daglegu tali. Á Spáni hafði fækkun erlendra ferðamanna neikvæð áhrif á söluna.

Primark selur vörur sínar ekki í gegnum vefinn og treystir því á heimsóknir í verslanir. Fjármálastjóri keðjunnar, John Bason, segir þó Primark halda markaðshlutdeild sinni og er bjartsýnn fyrir jólavertíðinni.

Þrátt fyrir vonbrigði með sölu á fjórðungnum hækkar afkomuspá móðurfélagsins, AB Foods, fyrir rekstrarárið. Hækkunin er rakin til sterkrar afkomuframlegðar í tískuiðnaðinum vegna færri stöðugilda og lægri rekstrarkostnaðar, auk góðs árangur í matvæla- og sykurgeiranum.