Veltutölur verslunar í september sýna áframhaldandi aukna sölu varanlegra neysluvara samanborið við sama tíma í fyrra. Kemur þetta fram í umfjöllun Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst.

Eykst sala raftækja um 24% frá fyrra ári og flokkar byggingavara og húsgagna vaxa hvor um sig um 15% frá sama mánuði árið 2013 mælt á föstu verðlagi. Samhliða styrkingu krónunnar hefur verð innfluttra vara lækkað nokkuð en verðvísitala raftækja hefur sem dæmi lækkað um 3% síðustu 12 mánuði og verðvísitala húsgagna um 5,7%.

Vöxtur í sölu byggingavara verður þó ekki rakinn til lækkunar verðs en verðvísitala byggingavöru stendur að mestu í stað frá fyrra ári, að því er segir í umfjölluninni.