Að sögn Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra er það mat ráðgjafafyrirtækisins Morgan Stanley að með því að selja Símann í einu lagi megi fá 20-25% hærra verð fyrir Símann en ella. Þetta kemur fram í pistli á heimasíðu hennar og þar kemur einnig fram að nú þegar hafa yfir 40 innlend og erlend fyrirtæki óskað eftir tilboðsgögnum sem ráðherran telur sérstakt ánægjuefni.

"Tekin hefur verið ákvörðun um að selja Símann í einu lagi að tillögu Morgan Stanley. Það gefur mun hærra verð en ella en mjög er horft til þess að ríkið fái það hámarksverð sem unnt er að fá fyrir eign sína. Telur Morgan Stanley að hér geti munað 20-25% í verði og svo geta menn reiknað hver fyrir sig hversu margir milljarðar það eru miðað við áætlað söluvirði fyrirtækisins. Þá hefur einnig verið ákveðið að minnst þrír aðilar skuli bjóða í Símann og ekkert þeirra eigi meira en 45%. Þá hefur verið sett skilyrði þess efnis að nýr eigandi selji innan þriggja ára 30% út úr fyrirtækinu og að það verði skráð í Kauphöll," segir Valgerður í pistli sínum.

Hún segist áður hafa fjallað um mikilvægi uppbyggingar fjarskiptakerfisins í tengslum við söluna en hún segir það skilyrði framsóknarmanna fyrir því að selja Símann. "Með sölunni gefst nú tækifæri til frekari uppbyggingar á fjarskiptaþjónustu, ekki hvað síst í dreifðari byggðum landsins. Í því skyni verður stofnaður sérstakur fjarskiptasjóður, sem hefur þann tilgang að efla dreifikerfið og jafna aðstöðumun landsmanna.

Sala Símans er rökrétt næsta skref á þeirri braut sem núverandi stjórnarflokkar hafa verið að feta á síðustu árum. Á þessum árum hafa verið framkvæmdar miklar skipulagsbreytingar á íslensku efnahagslífi. Markmið þeirra hefur verið að skapa umhverfi fyrir öflugt markaðshagkerfi og kröftugt atvinnulíf sem skapar grundvöll fyrir traust velferðarkerfi. Hefur þetta gengið vonum framar og njóta landsmenn afrakstursins í formi samfellds hagvaxtar, lítils atvinnuleysis, lengsta skeiðs kaupmáttaraukningar frá lýðveldisstofnun, aukinnar samkeppnishæfni þjóðarinnar og síðast en ekki síst öflugs velferðarkerfis sem stendur öllum opið, óháð efnahag.

Menn geta lengi velt sér upp úr gróusögum. Sjálfsagt er að bera í bakkafullan lækinn fyrir mig að fara einu sinni enn yfir söluferli ríkisbankanna og Símans, svo oft hefur það verið gert. Ég hvet hins vegar alla áhugasama til að kynna sér hvernig söluferli þessara fyrirtækja var háttað og meta síðan á grunni staðreynda hvort eitthvað hafi verið óeðlilegt við þá framkvæmd. Það er nefnilega oft betra að byggja mál sitt á staðreyndum fremur en tilfinningu," segir Valgerður í pistli sínum.