Samkomulag við nýja eigendur Skeljungs liggur fyrir. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins á einungis eftir að ganga frá atriðum sem snúa að Glitni, sem hefur annast söluna, og Fons, sem er seljandi.

Samningur hefur í grundvallaratriðum legið fyrir í nokkra daga. Viðræður eru á algjöru lokastigi og er talið að jafnvel verði tilkynnt um sölu fyrirtækisins til nýrra eigenda í dag.

Kaupendurnir eru Birgir Þ. Bieltvedt, ásamt hjónunum Guðmundi Þórðarsyni og Svanhildi Vigfúsdóttur, og Gunnari Karli Guðmundssyni, forstjóra Skeljungs.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er gert ráð fyrir að Glitnir muni eiga lítinn hlut í fyrirtækinu en hann verði seldur síðar.

Seljandinn, Fons, er eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar.

Um það bil ár er nú síðan Glitnir tók fyrirtækið til sölumeðferðar og veitti Fons sölutryggingu á verði, sem ekki fæst gefið upp. Auk Íslands er Skeljungur með starfsemi í Færeyjum. Ekki er endanlega ljóst hvort sá hluti fyrirtækisins verður áfram í höndum Fons eða fer yfir til nýrra eigenda.