Alls nemur útgáfan í þeim fjórum ríkisskuldabréfaútboðum sem Lánamál hafa haldið á fyrsta ársfjórðungi 22,1 milljörðum króna. Þar að auki voru seld bréf í skuldabréfaflokknum RIKS 33 í tengslum við gjaldeyrisútboðið í byrjun febrúar fyrir 615 milljónir. Í Morgunkorni Íslandsbanka segir að útgáfan á fyrsta fjórðungi nemi því rúmlega 22,7 milljörðum króna alls, eða rúmlega 76% af því hámarki sem ársfjórðungsáætlunin hljóðar upp á.

Þá er ríkisbréfaútgáfa frá áramótum þegar komin í fjórðung þess sem áætlað er að gefa út af ríkisbréfum á árinu, þrátt fyrir að tæpir tveir mánuðir séu liðnir af árinu. Segir í Morgunkorninu að svo virðist sem Lánamál vilji hafa borð fyrir báru varðandi lausafjárstöðu ríkissjóðs í aðdraganda stórs gjalddaga í maí næstkomandi.