Breska helgarblaðið The Observer hefur eftir heimildamanni sínum að síðasti fjárfestahópurinn eftir í kapphlaupinu um Somerfield hafi alvarlegar áhyggjur af fyrirtækinu og ekki sé víst að tilboð berist í bresku matvöruverslunarkeðjuna.

Hópurinn sem eftir stendur, eftir að Livingstone-bræður hættu við að bjóða í Somerfield, inniheldur breska fjárfestingasjóðinn Apax, breska bankann Barclays Capital og auðjöfurinn Robert Tchenguiz. Baugur Group var einnig hluti af hópnum áður en félagið neyddist til að hætta þáttöku vegna Baugsmálsins.

Í frétt The Observer, sem er helgarblað The Guardian, segir að niðurstöður áreiðanleikakönnunar hafi valdið vonbrigðum. Að hópurinn hafi áhyggjur af lífeyrisskuldbindingum Somerfield og rannsókn breskra samkeppnisyfirvalda á verðsamráði breskra matvöruverslana og tóbaksfyrirtækja.

Baugur lýsti fyrst áhuga á að taka yfir Somerfield í mars og síðan hafa fjölmargir aðilar sýnt félaginu áhuga. Somerfield-keðjan er metin á rúmlega einn milljarð punda (108 milljarða íslenskra króna). Hugsanlegir kaupendur hafa frest til 14. október til þess að bjóða í félagið.