Sala í Bretlandi á stafrænni tónlist á Netinu nam 6,1 milljónum punda, jafnvirði rúmum 1,1 milljarði íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Þetta er 17,5% aukning frá sama tíma í fyrra. Sala á tónlist hefur hins vegar dregist saman um 11,4% frá áramótum.

Salan nú jafngildir því að 21 milljón plötur hafi selst á þriðja fjórðungi ársins.

Fram kemur í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian að tónlistarsala á netinu nemi nú fjórðungi af heildarsölu á tónlist. Salan hefur aldrei verið jafn góð og nú og útlit fyrir að met verði slegið eftir jólavertíðina, að sögn blaðsins.

Mylo Xyloto, nýjasta plata bresku hljómveitarinnar Coldplay, gefur fyrirheit um það sem koma skal. Platan kom út í lok október og seldist í 80 þúsund eintökum á einni viku eftir að hún kom út.

Söluhæsta platan í netsölu í Bretlandi er platan 21 með Adele sem kom út í byrjun árs. Hún hefur nú selst í 670 þúsund eintökum í rafrænum verslunum.