Sala á ýmsum ferðamannavarningi og útivistarfatnaði er svipaður í ár og í fyrra, segir Ágúst Þór Eiríksson, sem rekur Drífu, heildsölu með ýmsan varning stílaðan á ferðamenn. Ágúst Þór rekur einnig verslunina Icewear. Hann segir að sala hafi verið svipuð síðastliðin þrjú ár en nokkur sprening hafi orðið árið 2009.

Drífa er stærsta heildsölufyrirtæki á markaðinum með ferðamannavarning og selur í verslunum um allt land. Einnig er fyrirtækið Sólarfilma stórt á þessum markaði. Ágúst Þór segir þó markaðinn ekki stóran og fyrirtækin tvö séu þau helstu á markaði.

Samkvæmt ársreikningi Drífu ehf. fyrir árið 2009 nam hagnaður félagsins um 64 milljónum, um 20 milljónum hærri en árið áður. Hagnaður Sólarfilmu, sem er í eigu Þórhalls Birgissonar og Kathleen Marie Bearden, nam um 17 milljónum á árinu 2009.

Búðir sem eru sérstaklega ætlaðar ferðamönnum og verslanir með útivistarfatnað hafa orðið fyrirferðameiri í miðbæ Reykjavíkur undanfarin ár, sérstaklega á neðri hluta Laugavegar og í Bankastræti.