Bandaríska fyrirtækið Apple Computer, sem meðal annars framleiðir hina vinsælu MP3 spilara IPod, hagnaðist um 430 milljónir bandaríkjadollara (26,5 milljarða króna) eða 50 sent á hlut á þriðja ársfjórðungi. Hagnaður félagsins hefur rúmlega fjórfaldast á milli ára, en á þriðja ársfjórðungi síðasta árs nam hann 106 milljónum dollara (6,5 milljörðum kr.), eða 13 sentum á hlut. Þá námu tekjur Apple á þriðja ársfjórðungi alls 3,68 milljörðum kr. (234 ma.kr.) og hafa þær aukist um 57% frá sama tímabili síðasta árs. Um er að ræða besta fjórðung í sögu félagsins segir í frétt í Vegvísi Landsbankans.

Þar er bent á að sérfræðingar og aðrir markaðsaðilar vestanhafs bjuggust jafnan við því að Apple myndi selja á bilinu 7,5 m. - 8,5 m. IPod MP3 spilara á þriðja ársfjórðungi. Spár þeirra gengu hins vegar ekki eftir þar sem einungis voru seldir um 6,5 m. slíkir spilarar á tímabilinu. "Þrátt fyrir að fjöldi seldra eininga sé talsvert undir væntingum markaðsaðila jókst sala IPod samt sem áður um 220% á þriðja ársfjórðungi m.v. sama tímabil síðasta árs. Það sem af er ári hafa selst rúmlega 28 m. IPod tónlistarspilarar," segir í Vegvísi.

Þar er einnig bent á að fyrir skömmu hóf Apple sölu á nýrri gerð MP3 tónlistarspilara sem nefnist IPod Nano og á fyrstu sautján dögunum sem þessi nýji spilari var í verslunum seldust rúmlega milljón stykki. Fjármálstjóri félagsins segir eftirspurn eftir nýju gerðinni vera með ólíkindum og að Apple geti engan veginn annað henni. Hann segir það óljóst hvenær að hægt verði að mæta allri umframeftirspurninni. Þessar fréttir fóru afar illa í markaðsaðila sem endurspeglast í því að gengi hlutabréfa í félaginu hrapaði um 10% í viðskiptum á eftirmarkaði í gær, en Apple birti afkomu sína fyrir þríðja ársfjórðung við lokun markaða vestanhafs í gær.

Byggt á frétt Vegvísis Landsbankans.