Ensk-hollenska neytendavörufyrirtækið Unilever tilkynnti í gær um 10% hækkun hagnaðar fyrir skatt á fyrsta fjórðungi ársins 2006, en undirliggjandi sala á fjórðungnum var engu að síður undir væntingum. Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu um nærri 5% fyrri part gærdagsins, en fyrirtækið tilkynnti að undirliggjandi sala hefði aðeins aukist um 2,9%, sem var minna en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir.

Rekstrarhagnaður á fyrsta fjórðungi var einnig 0,2 prósentustigum lægri en á sama tíma í fyrra og nam 14,8%, en fyrirtækið kenndi aukinni fjárfestingu í auglýsingum og kynningarstarfsemi um.

Hagnaður fyrir skatta var 1,31 milljarður evra á fyrsta ársfjórðungi, eða 119,6 milljarðar króna, borið saman við 1,18 milljarða evra á sama tímabili á síðasta ári. Velta jókst og nam 9,54 milljörðum evra, 871 milljarði íslenskra króna, borið saman við 8,78 milljarða á sama tíma árið 2005.

Starfsemi fyrirtækisins í Evrópu var dragbítur á söluvöxt, en þar minnkaði undirliggjandi sala um 0,5%. Fyrirtækið sagði að neysla væri áfram veik í Vestur-Evrópu, þótt vöxtur væri góður í Mið- og Austur-Evrópu.

Á móti kom að niðurstaðan í Asíu og Afríku var betri en búist hafði verið við, en þar jókst undirliggjandi sala um 8% og eftirspurn neytenda þar var "veruleg". Í Ameríkuálfunum, þar sem eftirspurn bandarískra neytenda eftir umhirðuvörum var sterk, hækkaði undirliggjandi sala um 2,9%, að hluta til vegna hækkandi verðs.

"Forgangsatriði okkar á árinu 2006 eru að halda vexti áfram í sölu vandaðra vara og auka framlegð," sagði forstjóri Unilever, Patrick Cescau. "Með afkomunni á fyrsta fjórðungi erum við á áætlun með að ná þessum markmiðum og heildarmarkaðshlutdeild okkar hefur verið stöðug frá ársbyrjun í fyrra," sagði hann.

Þá bætti hann við: "Í Vestur-Evrópu höldum við hlutdeild okkar og þar eru ýmis jákvæð teikn á lofti um betra ástand. Vinna við að koma upp vexti sem hægt er að halda við er á áætlun."

Fyrirtækið breytti ekki spá sinni um afkomu ársins 2006 -- sagði að það byggist við að framlegð batnaði frá því í fyrra, þegar hún nam 13,4%. Þá sagði í tilkynningu frá fyrirtækinu að það byggist við að endurskipulagningarkostnaður yrði um 1% af sölu á árinu.