*

þriðjudagur, 28. janúar 2020
Innlent 31. október 2019 10:15

Sala Valitor dregist á langinn

Arion banki telur Valitor 12 milljarða króna virði. Tap bankans af kortafyrirtækinu nemur 2,9 milljörðum króna árinu.

Ritstjórn
Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.
Haraldur Guðjónsson

Söluferli Arion banka á kortafyrirtækinu Valitor hefur tekið lengri tíma en búist var við. Ár er síðan Arion greindi frá því að söluferli Valitor væri að hefjast en Citi er ráðgjafi Arion í söluferlinu. Arion telur kortafyrirtækið vera 11,7 milljarða króna virði. Þetta kemur fram í uppgjöri bankans sem birt var í gær. 

Valitor tapað 1,9 milljörðum króna á árinu 2018 en tap félagsins nemur 2,9 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum þessa árs. 

Arion banki hefur sent frá sér tvær afkomuviðvaranir á árinu vegna Valitor. Sú fyrri kom í apríl þegar Valitor dæmt til að greiða Sunshine Press Productions og Datacell, rekstrarfélagi Wikileaks, 1,2 milljarða króna í bætur. Sú síðari var gefin út 14. október en þá tilkynnti bankinn um þriggja milljarða króna tap af rekstri þriggja eigna sem bankinn er með í sölu. Eignirnar eru Valitor, kísilver United Silicon sem bankinn vinnur að því að laga og selja sem og ferðaskrifstofusamstæðan TravelCo sem Arion tók yfir í sumar. Fréttablaðið greindi frá því að meirihluta stjórnar Valitor hafi verið skipt út fyrr í október, í miðju söluferli fyrirtækisins.

Kísilverið, TravelCo, og Valitor rýrðu afkomu Arion banka töluvert á fyrstu níu mánuðum ársins. Arðsemi eigin fjár bankans nam 2,6% á tímabilinu og hagnaður 3,9 milljörðum króna en var 8,9 milljarðar króna án tillits til eignanna þriggja. Tap bankans vegna fyrirtækjanna þriggja á árinu nemur tæplega fimm milljörðum króna.

Stikkorð: Arion banki Valitor