Volkswagen samteypan, sem framleiðir fjölda bílategunda, jók söluna í Evrópu um 8,4% í september. Salan á Volkswagen bílum jókst um 6,6% í mánuðnum. Þetta kemur fram í gögnum Samtaka evrópskra bílaframleiðenda sem voru birt í morgun.

Söluaukningin á VW merkinu er minni í september en það sem af er ári, en salan var að meðaltali 7,5% meiri en árið á undan.

Bílasala í Evrópu jókst um 9,8% í mánuðnum og er því nokkuð meiri en aukningin hjá Volkswagen, en samsteypan er lang stærsti bílaframleiðandinn í Evrópu. VW hefur selt 2,6 milljónir bíla í álfunni, en næst kemur franski PSA Peugeot Citroën með rúmlega eina milljón selda bila.

Of snemmt að segja til um áhrifin

Útblástursmálið kom upp 18. september en sölutölur fyrir september benda til að hneyklismálið hafi haft lítil áhrif. Það er hins vegar of snemmt að segja til um það. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær þessir bílar voru seldir þó þeir hafi verið afhentir í september.

Á næstu dögum mun Volkswagen birta sölutölur sínar á heimsvísu fyrir september. Sölutölur á næstu mánuðum munu hins vegar segja meiri sögu um áhrifin af hneykslismálinu.

Hlutabréf í VW hafa lækkað um 1,4% það sem af er degi.