Salan á dystópísku framtíðarskáldsögunni 1984 hefur rokið upp í 6. sæti á metsölulista Amazon, eftir að ráðgjafi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, notaði frasann „alternative facts“, sem útleggja mætti á íslensku sem aðrar staðreyndir.

Breska blaðið Guardian segir að ýmsir hafi borið frasann við hugtakið „newspeak", eða nýtal, sem notað var í skáldsögunni sem samin var árið 1949, sem var notað yfir það tungumál sem mótað hafði verið í þeirri svörtu mynd af framtíðinni sem höfundur sá fyrir sér.

Tilgangurinn með mótun tungumálsins var þá til að draga úr gagnrýnni og sjálfstæðri hugsun almennings. Sagði fréttamaðurinn Karen Tumulty í þætti á sjónvarpsstöðinni CNN að frasinn væri eins og runninn úr ranni George Orwell.

Ráðgjafinn, Kellyanne Conway, notaði frasann í samhengi við ummæli fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins um að innsetningarathöfn Trump í forsetaembættið hefði dregið að sér stærsta áhorfendahóp sögunnar.

Í bókinni 1984 lýsir Orwell framtíðarsýn þar sem ofurríki hefur náð alræðisvaldi yfir fólki og ofsækir alla sjálfstæða hugsun þegnanna.