Ný Hamleys leikfangaverslun var opnuð í Dublin í liðinni viku og svo virðist sem Írar hafi verið æstir í að kaupa leikföng, því salan þessa fyrstu viku fór 60 prósentum fram úr spám að því er kemur fram í tilkynningu frá Baugi, eiganda Hamleys.

Verslunin er í Dundrum verslanamiðstöðinni í miðborginni og er á þremur hæðum.

Í versluninni er endurskapaður sá heimur sem einkennir flaggskipsverslunina við Regent-stræti í London og rétt eins og í London býður hún upp á skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Um 60 manns starfa í verslunni. Í næstu viku nánar tiltekið þann 4. nóvember verður svo opnuð ný 3.200 m2 verslun í Dubai. Í Dubai Mall verslanamiðstöðinni verða rösklega 1200 verslanir.

Allt er þetta hluti af alþjóðlegri útrás Hamleys en fyrirhugað er að opna nýjar verslanir bæði í Bretlandi og erlendis á komandi árum segir í tilkynningunni.