Sala FL Group á hlutum sínum í Straumi-Burðarás kemur ekki á óvart þar sem eignarhald félagsins í Straumi-Burðarás fer að öllum líkindum ekki vel saman við eignarhald félagsins í Glitni, segir greiningardeild Kaupþings banka. FL Group seldi í dag 22,6% hlut í Straumi-Burðarás.

?Á þessu ári hefur FL Group jafnt og þétt aukið eignarhlut sinn í Glitni. Þannig hefur eignarhlutur félagsins aukist úr tæpum 10% í upphafi árs í rúm 30% af heildarhlutafé í bankanum.

Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki verða aðilar, er hafa virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum (yfir 10%), að fá samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir hlut sínum, ellegar bera þeir ekki atkvæðisrétt af því sem umfram stendur. FL Group hefur til þessa ekki hlotið samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir virkum eignarhlut sínum í Glitni og getur þar af leiðandi aðeins nýtt um 10% hlutafjár í bankanum til atkvæðaréttar á hluthafafundum,? segir greiningardeildin.

Hún segir að ekki sé ólíklegt að óbreyttur eignarhlutur í Straumi-Burðarás hefði staðið í vegi fyrir samþykki FME um virkan eignarhlut FL Group í Glitni. ?Við gerum því ráð fyrir að með sölunni ætti fyrirstaða vegna mögulegra hagsmunaárekstra, tengt eignarhlut félagsins í Straumi, nú að vera úr sögunni,? segir greiningardeildin.