Söluferlið á Ferðaskrifstofu Íslands hefur nú verið sett á ís í bili og frekari viðræðum frestað. Þetta staðfestir Gunnar Jóhannesson, forstöðumaður hjá Arctica Finance. Gunnar vildi ekki gefa upp meira um málið en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru þrír aðilar eftir í söluferlinu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá vildi Pálmi Haraldsson, eigandi Ferðaskrifstofu Íslands, fá um 800 milljónir króna fyrir fyrirtækið. Allir þeir sem buðu í fyrirtækið gerðu samkvæmt heimildum blaðsins nokkuð lægra tilboð þannig að ekki náðust samningar um sölu á fyrirtækinu.

Nokkur orðrómur hefur verið um að stjórnendur fyrirtækisins hefðu boðið í reksturinn en Þorsteinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að svo sé ekki.