Jólatónleikar Baggalúts er árlegur viðburður hjá mörgum en svo virðist sem ekkert lát sé á miðasölu líkt og fyrri ár. Þegar er uppselt á alla tónleika hljómsveitarinnar. Tónleikarnir verða haldnir í Háskólabíói líkt og undanfarin ár. Bragi Valdimar Skúlason hljómsveitarmeðlimur segir fólk hafa óútskýrða þörf fyrir að sjá sömu mennina, syngja sömu lögin, segja sömu brandarana í sömu straujuðu skyrtunum ár eftir ár. „Salan hefur gengið óhugnanlega vel. Miðar á sex tónleika ruku út á áður óþekktum ógnarhraða og nú erum við að snúa upp á dýrmætar hendur hljóðfæraleikaranna til að bæta við ferum tónleikum sem fara í sölu á morgun.“

Í ár verða ekki haldnir tónleikar í Hofi á Akureyri en þess í stað mun hljómsveitin spila um helgina á Akureyri. „Við ætlum að freista þess að sefa Norðlendinga í kvöld, með tvennum tónleikum á Græna hattinum. Því miður komumst við ekki í Hof fyrir þessi jól, vegna vandræða og ófyrirséðs flækjustigs í starfsmannahaldi.“

Fyrstu jólatónleikar Baggalúts voru haldnir í Iðnó á Þorláksmessu árið 2006. Þá voru leynigestir þeir KK og Björgvin Halldórs en mikil leynd hvílir yfir gestunum í ár. „Það er algert hernaðarleyndarmál. Því við viljum geta rekið leynigestinn með mjög skömmum fyrirvara vilji svo ólíklega til að Sigurður bJóla ákveði að stíga á svið með okkur - en þá getum við líka hætt þessu.“

Spurður hvort búast megi við að flutt verði nýtt efni í bland við gamalt segir Bragi þetta verði hæfilega blöndu. „Við munum flytja hæfilega blöndu af jólalögum sem í raun eru ekki jólalög og jólalegustu ekki-jólalögunum okkar. Eitthvað misjólalegt nýmeti fær svo eflaust að fljóta með.“

Bragi segir hljómsveitarmeðlimina sjálfa ennþá hafa nokkuð gaman af þessu. „Svona bæði og. Við höfum auðvitað afskaplega mikla ánægju af því að fylgjast með miðasölunni. Svo höfum við reyndar mjög gaman af hléinu, því þá fáum við alltaf svo gott að borða.“