Huang Nubo
Huang Nubo
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)
Tryggvi Harðarson sveitastjóri í Þingeyjarsveit gagnrýnir Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, harkalega í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag fyrir að hafna kaupum Kínverjans Huang Nubo á Grimsstöðum á Fjöllum. „Fullyrt hefur verið trekk í trekk að þjóðin sé að afsala sér ekki bara landi heldur hugsanlegum auðlindaréttindum sem því fylgja. Það er alrangt. Almenningur í landinu á ekkert í því landi sem til sölu er og ekkert í þeim réttindum sem því fylgja,“ segir Tryggvi.

Sveitastjórinn, sem var samtíða Nubo í Pekingháskóla, segir að ríkisvaldið þurfi að sýna fram á ríka hagsmuni til að standa gegn viðskiptum tveggja einkaaðila. „Um það snýst undanþágugrein laga um jarðarkaup. Ef ekki eru málefnaleg rök fyrir því að hafna slíkum viðskiptum gengur það augljóslega gegn stjórnarskránni en enn hefur ekki verið lagt til að afnema friðhelgi eignarréttarins. Stjórnvöld eins og aðrir geta ekki horft fram hjá stjórnarskránni eða leyft sér að hundsa hana ef þeim sýnist svo.“