Arion banki kynnti hálfs árs uppgjör sitt í höfuðstöðvum sínum í dag en þar kom m.a. fram að hagnaður fyrstu sex mánaða ársins nam 17,4 milljörðum króna sem er töluverð hækkun frá því á sama tíma fyrir ári síðan þegar hann nam 5,9 milljörðum. Að sögn Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka vega þar hærri þóknunartekjur þungt auk þess sem að sala bankans á hlut sínum í HB Granda fyrr á árinu hafi sett sitt mark á uppgjörið.

Meðal stórra verkefna hjá Arion banka síðustu mánuði var að losa um hlut sinn í Landfestum en bankinn er enn mjög umsvifamikill á fasteignamarkaði. Nú stefnir bankinn á að losa enn meira um hlut sinn í fasteignafélaginu Eik og Reitum á næstunni.

VB Sjónvarp ræddi við Höskuld.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag er fjallað ítarlega um uppgjör Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .