Sala Franz Jezorski, athafnamanns og fv. stjórnarformanns bílaumboðsins Heklu, á 50% eignarhlut sínum í Heklu, er nú á lokametrunum. Það er Volkswagen í Danmörku sem hyggst kaupa hlut Franz í félaginu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins færði Volkswagen í Danmörku nýlega fjármagn til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans til að kaupa fyrrnefndan hlut í félaginu. Eftir því sem blaðið kemst næst er þar um að ræða 700-800 miljónir króna.

Að öllu óbreyttu verður Friðbert Friðbertsson áfram forstjóri félagsins en hann á sem kunnugt er 50% hlut í félaginu til móts við Franz. Það er fyrir tilstilli Friðberts sem Volkswagen í Danmörku kemur nú að kaupunum á fyrrnefndum hlut Franz í félaginu.

Nánar er fjallað um söluna á Heklu og baráttu eigendanna um yfirráð í félaginu í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.