Hagnaður stoðtækjaframleiðandans Össurar hf. nam 10 milljónum dollara eða tæplega 120 milljónum íslenskra króna. Sameining á framleiðslueiningum hefur áhrif á arðsemina á fjórðungnum. EBITDA nam 20 milljónum dollara eða 19% af sölu. Framlegð nam 63 milljónum dollara eða 60% af sölu.

Söluvöxtur

Söluvöxtur á öðrum ársfjórðungi hjá Össuri hf. var 17% mælt í dollurum. Salan fór í fyrsta skipti yfir 100 milljónir dollara á einum ársfjórðungi. Salan jókst um 10% mælt í staðbundinni mynt og skila öll landsvæði og vörumarkaðir aukinni sölu. Heildarsalan nam 105 milljónum dollurum á öðrum ársfjórðungi samanborið við 90 milljónir dollara á öðrum ársfjórðungi 2010.

Söluvöxtur í spelkum og stuðningsvörum var 16%, mælt í staðbundinni mynt. Söluvöxtur í stoðtækjum var 4%, mælt í staðbundinni mynt. Gott og jafnt framboð á nýjum vörum er mikilvægur þáttur í vexti Össurar. Á öðrum ársfjórðungi voru fimm nýjar vörur kynntar, tvær í spelkum og  stuðningsvörum og þrjár í stoðtækjum.

Sameining framleiðslueininga

Eitt mikilvægasta verkefnið á þessa árs hjá Össuri er sameining á framleiðslueiningum og uppbygging á nýrri framleiðslueiningu fyrir spelkur og stuðningsvörur í Mexikó. Verkefnið gengur vel og er gert ráð fyrir að flutningur á allri framleiðslu á spelkum og stuðningsvörum í Bandaríkjunum verði lokið fyrir árslok 2011 af því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Góðar niðustöður

"Niðurstöður annars ársfjórðungs eru almennt góðar og í takt við áætlun okkar fyrir árið í heild. Allir markaðir skila viðunandi vexti og frammistaða okkar á nokkrum mörkuðum var sérlega góð. Við höldum áfram að auka markaðshlutdeild okkar á spelku- og stuðningsvörumarkaðnum í Bandaríkjunum, sem er okkar stærsti markaður, og í Evrópu náðum við mjög góðum árangri á stoðtækjamarkaðnum, hvort sem litið er til landsvæða eða vörulína," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.