Nýsköpunarfyrirtækið Zymetech sérhæfir sig í að framleiða vörur sem unnar eru úr meltingarensímum úr þorski. Meðal varanna sem fyrirtækið framleiðir er munnúði sem nefnist PreCold og virkar sem vörn gegn kvefi og ýmsar snyrtivörur. Árið 2016 sameinuðust fyrirtækin Zymetech og sænska fyrirtækið Enzymatica en hið síðarnefnda er skráð á Nasdaq First North markaðinn. Ágústa Guðmundsdóttir, doktor í örveiru- og sameindaerfðafræði og annar stofnandi fyrirtækisins og rannsóknarstjóri hjá Zymetech, segir að hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað út frá rannsóknastarfi við Háskóla Íslands.

„Upphaflega voru það ég og maðurinn minn, Jón Bragi Bjarnason heitinn, sem gerðum rannsóknir og fengum styrk frá Tækniþróunarsjóði mörg ár í röð. Þetta var í raun samstarfsverkefni Háskólans og fyrirtækisins. Þetta hófst allt árið 1985 þegar fyrsti styrkurinn fékkst í verkefnið en síðan varð Zymetech formlega stofnað 1999. Fyrsta vara fyrirtækisins sem kom á markað var húðáburðurinn Penzím sem inniheldur ensím og allar okkar vörur hvort sem það eru snyrtivörur eða aðrar vörur byggja á þessari frumvöru að einhverju leyti,“ segir Ágústa og bætir við að fyrirtækið hafi allt frá upphafi rannsakað virkni ensíma. Fyrst ensím úr ljósátu en í seinni tíð hafi fyrirtækið farið að einbeita sér að því að rannsaka ensím úr þorski.

Ásgeir Ásgeirsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Zymetech, segir að þorskensímin séu afar merkilegt fyrirbæri. „Þorskurinn lifir við mjög erfiðar aðstæður, hann borðar næstum allt og þarf að melta allt sem hann borðar. Hann gleypir alla sína fæðu heila og þarf þess vegna að hafa mjög öflug ensím til þess að brjóta fæðuna niður og við mjög lágt hitastig.“ Hann segir jafnframt að það séu miklar kröfur gerðar um gæði á þeim hráefnum sem notuð eru í framleiðsluna.

„Þær kröfur um gæði sem eru gerðar til okkar vara eru mjög ríkar og við erum að nota hluta úr þorskinum, það er að segja slógið, sem var áður fyrr hent. Slógið hefur hingað til ekki verið ætlað til manneldis heldur hefur það bara verið brætt og notað í  mjöl og slíkt. Ef við tökum einn þorsk og seljum flökin út í búð að þá erum við í dag að vinna úr þessum sama þorski vörur frá Zymetech sem fást í apótekinu á margföldu því verði.“ Ásgeir bætir við að ef það eigi að skapa virði úr þessum hluta þorsksins þá verði vinnslan og útgerðin að meðhöndla þennan hluta vel því annars sé ekki hægt að skapa hágæða vöru.

Salan tók kipp í kjölfar COVID

Ágústa og Ásgeir segja bæði að fyrirtækið hafi fundið fyrir mikilli söluaukningu í COVID-19 heimsfaraldrinum. „Við fundum fyrir mikilli söluaukningu á PreCold munnúða í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Það er alveg ljóst að viðskiptavinir okkar hafa trú á því að PreCold varan okkar geti virkað gegn kórónuveirunni sem veldur COVID-19. En við getum ekki fullyrt hvort hún hafi þá virkni. Við höfum engar rannsóknir til að styðjast við." Ágústa bætir við að það séu þó rannsóknir sem sýni fram á það að varan virki gegn ákveðinni tegund af kórónuveiru sem veldur kvefi. „Ein af veirunum sem veldur kvefi er ákveðin tegund af kórónuveiru en það er samt sem áður ekki hægt að heimfæra þetta á milli þessara tveggja afbrigða. Það er ljóst að það er ekki hægt að gera klíníska rannsókn á þeirri kórónuveiru sem veldur COVID-19. Það er ekki hægt að gera rannsókn með svo hættulega veiru því það býður sig enginn fram til þess að vera tilraunadýr. Tilraunir hafa sýnt fram á það að PreCold óvirkji 99% af því kórónuveiru afbrigði sem veldur kvefi en enn og aftur þá getum við ekki sagt til um það hvort úðinn hafi áhrif á þá kórónuveiru sem veldur COVID-19."

Verð á hlutabréfum í Enzymatica hefur margfaldast á þessu ári. Ágústa segir að ástæðan fyrir þessum gífurlega árangri fyrirtækisins sé margþætt. „Það er búið að nást svo gríðarlegur árangur hjá fyrirtækinu á svo mörgum sviðum. Salan hefur aukist og svo hefur markaðssvæðunum okkar fjölgað líka. Svo öðluðust við nýtt einkaleyfi á ensímunum og síðan endurskráning vörunnar í Medical Device Class-III"

PreCold varan vinsæl

Varan PreCold er munnúði sem er úðað í munnholið og getur virkað sem fyrirbyggjandi vörn gegn kvefi sé það notað í upphafi sýkingar. Varan kom fyrst á markað í Svíþjóð árið 2012 undir nafninu ColdZyme en hún kom á markað hér á landi árið 2015. „Viðtökurnar við Precold hafa verið gífurlega góðar. Við höfum fengið frábærar viðtökur alls staðar þar sem hún hefur verið seld og síðan varan kom á markað hafa vinsældir hennar aukist mikið," segir Ásgeir.

Ágústa bætir við að varan hafi þó þurft að fara í gegnum langt og strangt skráningarferli áður en hún kom á markað. „Það þurfa allar vörur sem eru flokkaðar sem lækningatæki að fara í gegnum þetta skráningarferli. En um leið og varan hefur komist í gegnum þetta erfiða skráningarferli þá er áhuginn hjá lyfjafyrirtækjunum að taka vörurnar okkar í dreifingu miklu meiri."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .