Dómstóll í Bandaríkjunum hefur úrskurðað um að sala á körfuboltaliðinu Los Angeles Clippers getur farið fram, þrátt fyrir mótmæli Donald Sterling, meðeiganda félagsins. BBC segir frá þessu.

Hinn áttræði milljónamæringur Donald Sterling hefur mótmælt þeirri ákvörðun fyrrum konu hans, Shelly, að selja körfuboltaliðið til viðskiptajöfurins Steve Ballmer fyrir tvo milljarða bandaríkjadala. Í maí var Donald Sterling metinn óhæfur af læknum til að sinna viðskiptum vegna heilsubrests og þá öðlaðist Shelly völd yfir Clippers. Sterling hafði áður samþykkt að selja liðið en dró það síðan til baka og sagði konu sína hafa svikið sig.

Í apríl var Donald Sterling bannaður frá körfubolta til æviloka þegar hann var gripinn við að hafa uppi ummæli sem einkenndust af kynþáttahyggju.