Sala kínverska netverslunarrisans Alibaba nam hvorki meira né minna en 75 milljörðum dollara, eða sem nemur um 10.379 milljörðum króna, á degi einhleypra (e. Singles Day) sem fer fram þann 11. nóvember ár hvert. Aldrei áður hefur salan náð slíkum hæðum. Reuters greinir frá þessu.

Dagur einhleypra hefur fest sig í sessi sem langstærsti netsöluviðburður ár hvert og er hann talsvert stærri en aðrir nettilboðsdagar á borð við Svarta föstudaginn (e. Black Friday) og Cyber Monday vestanhafs.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær var reiknað með metsölu á degi einhleypra í ár vegna kórónuveirufaraldursins. Svo virðist sem að þær spár hafi ekki verið úr lausu lofti gripnar.