Sala á 69% hlut í Ölgerð Egils Skallagrímssonar er komin í höfn en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um seldi Eignarhaldsfélagið Þorgerður ehf, F-13 ehf og Lind ehf, sína eignarhluti til framtakssjóðanna Akur fjárfestingar slhf. og Horn III slhf., ásamt hópi einkafjárfesta.

Gengið var endanlega frá sölunni 27. apríl síðastliðinn og tóku fulltrúar framtakssjóðanna þá sæti í stjórninni. Nam söluverðið um fimm milljörðum króna þegar ekki var tekið tillit til skulda Ölgerðarinnar og handbærs fjár að því er segir í Fréttablaðinu í dag.

Andri Þór Guðmundsson er forstjóri fyrirtækisins, en nýr stjórnarformaður fyrirtækisins er Októ Einarsson, sem á ásamt Andra Þór alls 31% hlut í fyrirtækinu í gegnum OA eignarhaldsfélag ehf.

Við sama tækifæri fór Hermann Már Þórisson, framkvæmdastjóri Horns III inn í stjórnina ásamt Jóhannesi Haukssyni, framkvæmdastjóri Akurs. Einnig komu inn í stjórnina Rannveig Eir Einarsdóttir, forstöðumaður flugþjónustudeildar Icelandair og Sylvía Kristín Ólafsdóttir, starfsmaður Landsvirkjunar.