Í dag var gengið frá uppgjöri vegna sölu Skeljungs hf. á öllum hlutum í P/F Magn til Sp/f Orkufélagsins með greiðslu kaupverðs. Endanlegt heildarkaupverð hlutanna nam 12,2 milljörðum króna. Greint er frá þessu í Kauphallartilkynningu .

Í byrjun mánaðar var greint frá undirritun kaupsamningsins og eru kaupin nú því endanlega í höfn. Skeljungur mun endurfjárfesta um 23% af heildarsöluverði í Sp/f Orkufélaginu eða 2.823 milljónum króna. Skeljungur eignast 48,3% eignarhlut í Sp/f Orkufélaginu með skráningu á nýjum hlutum í félaginu samtals að fjárhæð 2.441 milljón króna auk lánveitinga í tengslum við viðskiptin að fjárhæð 382 milljónum króna.

Sjá einnig: Hagnast um 12 milljarða af eignasölu

„Samkvæmt ofangreindu mun eigið fé og afkoma Skeljungs hækka um 5,9 milljarða króna m.v. árshlutareikning 30. september 2021,“ segir í tilkynningunni.

Sp/f Orkufelagið er færeyskt félag undir forystu Ben Arabo, Teits Poulsen og Tommy Næs Djurhuus. Félagið hefur það að markmiði að verða leiðandi aðili í öllum tegundum orkurekstrar í Færeyjum.