Bandaríski vefmiðillinn Business Insider gaf á dögunum út myndbandsumfjöllun um íslenska saltframleiðandann Saltverk. Í myndbandinu, sem er hluti af þemaefninu So Expensive hjá vefmiðlinum, er útskýrt hvernig á því getur staðið að salt Saltverks sé allt að þrjátíu sinnum dýrara en hefðbundið borðsalt, og njóti þrátt fyrir það mikilla vinsælda.

Í myndbandinu er farið yfir framleiðsluferli sjávarsalts Saltverks í máli og myndum. Er sagt frá því að það helsta sem greini á milli saltsins frá Saltverki og annars ódýrs salts, sé að á meðan ódýrt salt sé grafið upp úr námum víðsvegar um heiminn sé íslenska saltið handunnið. Þá geri það saltframleiðslu Saltverks einstaka að framleiðslan sé vistvæn, enda alfarið knúin áfram af jarðhitaorku.

Um 8 milljón áhorf á rúmri viku

Viðbrögðin hafa svo sannarlega ekki látið á sér standa. Á þeirri rúmu viku sem liðin er frá því að Business Insider birti umfjöllunina fyrst á Facebook-síðu sinni, hefur myndbandið fengið tæplega sjö milljónir áhorfa. Nokkrum dögum eftir að myndbandið var birt á Facebook rataði það einnig inn á Twitter síðu og Youtube rás bandaríska vefmiðilsins, þar sem það hefur samtals fengið tæplega milljón áhorf.

Björn Steinar Jónsson, stofnandi og eigandi Saltverks, segir að í kjölfar umfjöllunar Business Insider hafi sala á salti Saltverks í gegnum netið tífaldast.

„Vörurnar okkar eru til sölu á Amazon og við rekum einnig okkar eigin netverslun. Stærsti hluti netviðskiptanna kemur frá Bandaríkjunum. Skömmu áður en myndbandið birtist var birgðastaðan okkar úti í Bandaríkjunum góð, miðað við hvernig salan hefur venjulega verið, en um síðustu helgi fór sjávarsaltið okkar á toppinn yfir mest seldu sjávarsöltin á Amazon og saltið var einnig ein af mest seldu vörunum í flokki sælkeramatvæla," segir hann. „Lagerinn í vöruhúsinu okkar úti í Bandaríkjunum tæmdist um helgina eftir að það bárust um 2.000 pantanir á fimm dögum, sem eru tífalt fleiri pantanir en hafa verið að berast í eðlilegu árferði."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .