*

mánudagur, 21. september 2020
Huginn & Muninn 21. júlí 2019 10:31

Sálarkirna Pírata

Fátt úr stjórnmálabaráttunni jafnast á við leyniræðuna um Birgittu Jónsdóttur sem Helgi Hrafn Gunnarsson hélt á fundi Pírata.

Huginn og muninn

Menn eru ýmsu vanir úr stjórnmálabaráttunni, ekki síst þó þegar innanflokksátök um forystuna standa yfir. Um það hafa menn ýmis dæmi í sögunni líkt og þegar þeir Gunnar og Geir bárust á banaspjót í Sjálfstæðisflokknum, Jón Baldvin og Jóhanna í Alþýðuflokknum eða svilfólkið Össur og Ingibjörg Sólrún í Samfylkingunni. Ekkert af því kemst þó í hálfkvisti við leyniræðuna um Birgittu, sem Helgi Hrafn Gunnarsson hélt á fundi Pírata á mánudag. Óhætt er að segja að þar hafi Birgittu Jónsdóttur verið úthúðað, m.a. sökuð um óheilindi og ofríki, en síðan hafnað með afgerandi hætti í atkvæðagreiðslu. Hún kynnti úrsögn úr flokknum í framhaldinu.

Flestum utan Píratasamfélagsins kom þetta á óvart, enda Birgitta forystukona Pírata um árabil og tvímælalaust þekktasti forystumaður flokksins. Þetta varpar nýju ljósi á fyrri ýfingar innan þingflokksins, þar sem leita þurfti til sálfræðings til þess að lægja öldurnar. Í ljósi ofsans og geðshræringarinnar á fundinum nú er spurning hvort ekki hefði þurft að kalla hann út aftur. Sálarkirna Pírata vekur annars fleiri spurningar þessa dagana.

Hinn síspuruli Björn Leví Gunnarsson lagði þannig fram fyrirspurn á Alþingi um hvort kjör Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, til varaformennsku í bankaráði Asíska innviðafjárfestingabankans (AIIB) í síðustu viku samrýmdist siðareglum þingsins. Sú spurning lýsir auðvitað annaðhvort furðulegri fávísi eða meinfýsni hjá Birni, því bankaráð þessa alþjóðlega þróunarbanka, sem 78 ríki eiga aðild að, er skipað fulltrúum ríkjanna, mest megnis ráðherrum. – Eins og auðvelt er að komast að með aðstoð Google, sem einnig hefði getað upplýst Björn Leví um að bankaráðsetan er ólaunuð. Verst er þó að Píratinn virðist ekki átta sig á því að með því að misnota fyrirspurnarréttinn til þess að dylgja eitthvað um Bjarna út í loftið er hann um leið að koma höggi á Ísland, sem nú tilnefnir í fyrsta sinn bankaráðsmann fyrir hönd níu Evrópuríkja. Með því að draga hæfi og heiðarleika fulltrúa Íslands í efa er um leið dregið úr tiltrú á Íslandi á alþjóðavettvangi.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér