Fjargeðheilbrigðisþjónustan Mín Líðan hóf starfsemi síðasta vor, fyrst sinnar tegundar á landinu. Þjónustan felst í sálfræðimeðferð og fer alfarið fram á netinu, í gegnum vefkerfi fyrirtækisins.

Hugmyndin kviknaði hjá Tönju Dögg Björnsdóttur þegar hún var í sálfræðinámi, og eftir útskrift hófst hún handa við að gera hana að veruleika. Unnusti hennar, Sveinn Óskar Hafliðason, hefur séð um viðskiptahliðina frá 2017, en hann segir Ísland vera svolítið eftirá þegar kemur að því að tileinka sér tækninýjungar í heilbrigðisþjónustu, enda sambærileg þjónusta löngum staðið til boða í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Mótuðu leikreglur fjarheilbrigðisþjónustu

Helsta áskorunin við að hrinda hugmyndinni í framkvæmd segir hann hafa verið að setja upp öruggt og notendavænt vefkerfi, en vefurinn var hannaður frá grunni og var fyrsta fjarheilbrigðisþjónustan sem fékk samþykki Landlæknis. „Það þýddi að við mótuðum leikreglurnar hálfpartinn með embættinu, sem aðrir aðilar gátu farið að þróa. Þeir litu til þess sem við höfðum verið að gera hvað varðar öryggi vefsíðunnar, innskráningarferlið, persónuvernd og fleira, sem í dag er forsenda þess að aðrir geti opnað fjarheilbrigðisþjónustu.“

Frá því að hugmyndin kviknaði liðu að sögn Sveins tvö til þrjú ár þar til þjónustan fór í loftið. „Ástæðan fyrir því að þetta gerist hægt er að svona verkefni er gríðarlega kostnaðarsamt. Við erum að tala um tugi milljóna fyrir að gera þennan vef, við erum örugglega komin í hátt í 20 milljónir.“

Verkefnið hefur fengið ýmsa styrki til að standa undir þeim kostnaði. Stærsti styrkurinn – sem kom frá Tækniþróunarsjóði í fyrra og hljóðaði upp á 10 milljónir á ári í tvö ár – kom verkefninu loks almennilega af stað, en aðrir styrkir nema samtals um 6 milljónum.

Fjarviðtöl mikil kjarabót fyrir landsbyggðina

Í fyrstu útfærslunni var aðeins um skrifleg samskipti að ræða. Samskiptin eru dulkóðuð og skjólstæðingur auðkennir sig með rafrænum skilríkjum. „Þetta er ekki rauntímaspjall, en Tanja svarar skilaboðum yfirleitt samdægurs.“

Nýlega var síðan svokölluðum fjarviðtölum bætt við þjónustuna sem boðið er upp á, sem eru einskonar myndsímtöl sem fram fara í gegnum öruggt samskiptakerfi hugbúnaðarfyrirtækisins Köru Connect. Höfuðborgarbúum kann að þykja fyrirhöfnin við að mæta í viðtal í eigin persónu – fyrst á annað borð er búið að bóka fastan viðtalstíma – óveruleg, en fyrir íbúa landsbyggðarinnar getur sparnaðurinn bæði í tíma og peningum verið gríðarlegur. „Það þarf ekki lengur að keyra á milli. Á landsbyggðinni er fólk að keyra jafnvel í nokkra klukkutíma til að fara til sálfræðings, eða þá að sálfræðingurinn keyrir eða flýgur til ákveðinna byggðarlaga og hittir þá eins marga og hann getur í einni ferð.“

Margfalt ódýrara

Auk ofangreindra þæginda og sparnaðar býður Mín Líðan mun lægri verð en fyrir sambærilega meðferð í eigin persónu. „Við erum að bjóða 10 tíma sálfræðimeðferð þar sem öll samskipti fara fram í skriflegum texta og vefkerfið kemur allri fræðslu til skjólstæðingsins og svo framvegis. Verkefnum og æfingum er að sama skapi skilað þar. Það kostar 40 þúsund.“ Til samanburðar kostar 10 tíma viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi gjarnan frá 150 þúsund krónum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .