Töluverð óánægja er sögð á meðal starfsmanna Isavia, sem rekur flugvelli landsins, m.a. Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að starfsmenn hafi oft lent upp á kant við yfirmenn sína. Ótal fundir munu hafa verið haldnir með sálfræðingum og sérfræðingum til að komast að rótum vandans. Það hefur engu skilað.

Stjórn Isavia hefur nokkrum sinnum gert viðhorfskannanir á ánægju starfsmanna. Niðurstöður síðustu viðhorfskönnunar sem voru fluttar munnlega fyrir starfsmenn Isavia benda til að aðeins 43% þeirra séu ánægð í starfi sínu. Starfsmenn Isavia eru 650 talsins.

Botninn mun hafa tekið úr fyrir um hálfum mánuði þegar Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, kynnti nýjan yfirmann vopnaleitar á flugstöðinni á fundi með starfsmönnum. Þar túlkuðu eldri starfsmenn Isavia orð Hlyns á þann veg að hann hefði talað niður til þeirra og gert gys að aldri þeirra. Fundinn sátu æðstu yfirmenn flugverndargæslunnar í Keflavík, aðalvarðstjórn og eftirlitsmenn ásamt fleirum. Málið hefur ratað inn á borð Félags flugmálastarfsmanna ríkisins og er þar litið á það alvarlegum augum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .