Á þingfundi á morgun mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Með frumvarpinu verður sálfræðiþjónusta felld undir greiðsluþáttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands og veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta, á borð við heilsugæslu, þjónustu sérgreinalækna og sjúkraþjálfun. Með þessu er verið að undirstrika að andlegir sjúkdómar séu ekki minna verðir en líkamlegir og greiða aðgengi allra að nauðsynlegum meðferðum. Verði frumvarpið samþykkt er það til þess fallið að auka lífsgæði fólks og hafa jákvæð þjóðhagsleg áhrif til lengri tíma. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í dag er sálfræðiþjónusta undanskilin almennri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Vaxandi fjöldi fólks greinist með geðraskanir eða önnur andleg veikindi en aðgengi að úrræðum og þjónustu fyrir þennan hóp er takmarkað og kostnaðurinn oft töluverður. Aðgengi að sálfræðiþjónustu er lykilatriði þegar kemur að því að greina kvilla snemma og tryggja nauðsynlega meðferð eftir að greining liggur fyrir. Mikilvægt er að tryggja að þeir sem eru með virk einkenni fái lausn á vanda sínum sem fyrst til að koma í veg fyrir vítahring lyfja, þunglyndis og óvirkni. Slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir þá sem þurfa á hjálp að halda og samfélagið allt.

Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars: „Nýverið birtist frétt um að nýgengi örorku vegna stoðkerfisvanda hafi minnkað með tilkomu niðurgreiðslu sjúkraþjálfunar frá ríkinu. Slíkt er dæmi um þann ávinning sem hlýst af því að ríkisvaldið fjárfesti í forvörnum og fyrirbyggjandi aðferðum í stað þess að afhenda plástra til þess að setja á einstaklinga til skemmri tíma. Það hefur sýnt sig að fyrirbyggjandi aðferðir, svo sem sálfræðiþjónusta, skila árangri og auka þar með líkur á að einstaklingar nái að viðhalda heilbrigði og virkni í samfélaginu. Þetta er að mati flutningsmanna góð forgangsröðun fjármuna sem vel er hægt að rökstyðja sem þjóðhagslegan ávinning."

Frumvarpið hefur þegar hlotið afar góð viðbrögð á þinginu og munu a.m.k. 21 þingmenn flytja frumvarpið með Þorgerði, úr flestum þingflokkum. Rík samstaða um réttarbót sem þessa er fagnaðarefni og merki um þá miklu vitundarvakningu sem hefur átt sér stað í samfélaginu um andleg veikindi og meðferðir við þeim.