*

laugardagur, 23. október 2021
Erlent 27. ágúst 2021 15:31

SalMar hættir við yfir­töku­til­boð í NRS

Ljóst er að ekkert verður úr samruna SalMar og Norway Royal Salmon, móðurfélaga Icelandic Salmong og Arctic Fish.

Ritstjórn
Frá laxeldisstöð Icelandic Salmon í Arnarfirði
Haraldur Guðjónsson

Norska fiskeldisfyrirtækið SalMar, móðurfélag Icelandic Salmon, sem hét áður Arnarlax, hefur hætt við að bjóða í allt hlutafé samkeppnisaðila síns Norway Royal Salmon (NRS), móðurfélags Arctic Fish. Því verður ekki af mögulegum samruna íslensku dótturfélaganna, líkt og SalMar hafði gefið í skyn.

SalMar tilkynnti tilboðið sitt fyrir viku síðan, sem gaf NRS verðmat upp á 168 milljarða íslenskra króna. Fram kom að tilboðið væri háð því að eigendur meirihluta hlutafjár NRS myndu samþykkja boðið. Tilboð Salmar hljóðaði upp á 270 norskar krónur.

Norska fyrirtækið NTS eignaðist í gær hins vegar yfir 50% af hlutafé NRS. Fiskeldisfyrirtækið NTS, lagði fram yfirtökutilboð í NRS í síðasta mánuði. Tilboðið hljóðaði upp á 209 norskar krónur á hlut en tilboðið var síðar hækkað í 240 norskar krónur á hlut. Í gær kom fram að Egil Kristoffersen & Sønner AS, nærst stærsti hluthafi NRS með um 10% hlut, hafi tekið tilboði NTS.

„SalMar harmar að tilboðið, sem var talsvert yfir tilboði NTS og gaf NRS sanngjarnt verðmat að mati SalMar, muni ekki standa hluthöfum NRS til boða,“ segir í tilkynningu norska fiskeldisfyrirtækisins vegna málsins. Fyrirtækið sagðist þykja miður að ekki verði af samlegðaráhrifum sem hefðu orðið möguleg við samruna SalMar og NRS.

Hlutabréf Norway Royal Salmon hafa lækkað um 28% frá því á miðvikudaginn.