Salmar, norska móðurfélag Icelandic Salmon, sem hét áður Arnarlax, hefur lagt fram tilboð í allt hlutafé samkeppnisaðila síns Norway Royal Salmon (NRS), móðurfélag Arctic Fish. Þetta kom fram í tilkynningu SalMar til norsku Kauphallarinnar á föstudaginn.

Tilboðið verðmetur NRS á 11,8 milljarða norskra króna, sem jafngildir 168 milljörðum íslenskra króna. Tilboð Salmar hljóðar upp á 270 norskar krónur á hlut en hlutabréfagengi NRS var um 242 norskar krónur á fimmtudaginn síðasta. Hlutabréfagengi NRS hækkaði um tæplega 13% á föstudaginn en stöðva þurfti viðskipti með hlutabréfin við opnun norsku kauphallarinnar, samkvæmt frétt Dagens Næringsliv. Hlutabréfaverð NRS stendur nú í 276 norskum krónum sem gefur til kynna að sumir fjárfestar eiga von á  fleirum tilboðum.

Fiskeldisfyrirtækið NTS, stærsti hluthafi NRS með 36,9% hlut í NRS, lagði fram yfirtökutilboð í NRS í síðasta mánuði. Tilboðið hljóðaði upp á 209 norskar krónur á hlut en tilboðið var síðar hækkað í 240 norskar krónur á hlut. Tilboðið frá SalMar er 12,5% yfir því sem NTS bauð í síðasta mánuði.

Í tilkynningu Salmar segir að fyrirhugaði samruninn bjóði upp á samlegð en fyrirtækin starfa bæði í Norður-Noregi og á Vestfjörðum.

„Mögulegur samruni Icelandic Salmon (stjórnað af SalMar) og Arctic (stjórnað af Arctic Fish), sem eru bæði með starfsstöðvar á Vestfjörðum, mun gera fyrirtækjunum kleift að ná fram verulegum samlegðaráhrifum með bættum rekstri á sjó og skilvirkri uppbyggingu á virðiskeðjunni á landi, þar með talin fiskseiðin, vinnslunni og sölu.“