Viðskiptavinum boðgreiðsluþjónustu SaltPay, áður Borgunar, sem verður lögð niður frá og með morgundeginum hefur verið gefinn kostur á að flytja sig yfir til SalesCloud. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Viðskiptablaðið fjallaði fyrr í dag um að SaltPay hafi tilkynnt viðskiptavinum sínum, með tveggja daga fyrirvara, að það ætlaði að leggja af boðgreiðsluþjónustu sína.

„Boðgreiðslukerfi, sem um 400 viðskiptavinir SaltPay hafa nýtt til að taka við föstum reglulegum greiðslum, verður aflagt og notendum þess hefur í staðinn verið boðið að færa sig yfir í sambærilega þjónustu sem veitt er af íslenska fyrirtækinu SalesCloud. Ástæðan er sú að SaltPay mun ekki eiga þess kost að þjónusta boðgreiðslukerfið eftir að nýtt færsluhirðingarkerfi okkar hefur verið tekið fulla í notkun. Boðgreiðslukerfið, sem nú er verið að taka úr notkun, byggir á gamalli tækni sem ekki hefur reynst mögulegt að viðhalda síðustu ár,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir að SaltPay muni aðstoða alla þá sem óska eftir því að færa sig yfir til SalesCloud en félögin hafa verið í samstarfi til nokkurra ára. Þá verður viðskiptavinum þjónustunnar boðið að fá einn mánuð frían sér að kostnaðarlausu hjá SalesCloud. „Við erum sannfærð um að hag allra viðskiptavina okkar sé betur borgið með því að færa sig í nýtt kerfi.“

„Eins og alltaf þegar skipt er um eldri kerfi og nýjar lausnir eru teknar í notkun þá fylgir því bæði nokkuð umstang og óhagræði fyrir viðskiptavini og við höfum fullan skilning á að einhverjir notenda þessarar þjónustu hefðu kosið að hafa þetta óbreytt áfram. Þetta er hins vegar rétt ákvörðun fyrir fjártæknifyrirtæki eins og okkar, sem leggur áherslu á að bjóða litlum og meðalstórum fyrirtækjum upp á bestu fáanlegu tæknilausnir hverju sinni. Sú stefna felur í sér að við þurfum reglulega að taka erfiðar og sársaukafullar ákvarðanir um að hætta að bjóða upp á vörur sem eru úreltar eða óhagkvæmar í rekstri.“