Á fyrstu 8 mánuðum ársins jókst veltan á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu um 18,4%, sem þýðir 102 milljarða veltu á þessu ári. Á Akureyri jókst veltan um 37,8% og er 7,4 milljarðar króna. Þessar tölur miðast við skráða kaupsamninga hjá Þjóðskrá.

Björn Guðmundsson, fasteignasali á Byggð fasteignasölu á Akureyri, segir fasteignakaup venjulega fólksins, salts jarðar, útskýra þessi auknu umsvif þó svo stærri fjárfestar séu líka að kaupa í auknum mæli. Hann segir meira af ungu fólki kaupa húsnæði og auðveldara sé að fá lánsfé frá bönkunum sem er jákvætt.

„Árið fór vel af stað hjá okkur en datt síðan niður í sumar. Nú er haustið hinsvegar að fara vel af stað sem sýnir hvað markaðurinn er frekar grunnur ennþá“.