*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 8. júní 2018 11:56

Salta frumvarp um veiðigjöld

Samkomulag hefur náðst á þingi um þinglok og verða veiðigjöldin framlengd óbreytt í stað þess að falla úr gildi 1. september.

Ritstjórn
Katrín Jakobsdóttir formaður VG er forsætisráðherra í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
epa

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að gagnrýni stjórnarandstöðunnar á veiðigjaldafrumvarp sjávarútvegsráðherra sé réttmæt að því er RÚV greinir frá.

Að óbreyttu munu lög um veiðigjöld á botnfiskafurðir falla úr gildi 1. september komandi við upphaf nýs veiðiárs, en frumvarp Sjávarútvegsráðherra átti að framlengja það á sama tíma og endurreikna átti forsendur gjaldsins.

Meðal helstu gagnrýni á núverandi veiðigjald hefur verið að það miðast við nokkurra ára gamlar veiðitölur og taki ekki tillit til breyttra rekstraraðstæðna. Miðast álagningin nú við fiskveiðiárið 2014 til 2015, en frumvarpið átti að færa hana þannig að hún miðaðist við núverandi fiskveiðiár. Rökin voru þau að fyrir þremur árum voru aðstæður allt aðrar og betri en þær eru í dag.

Landsbyggðarskattur

Auk þess hefur hagfræðingur SFS bent á að gjaldið leggist af meiri þunga á landsbyggðina, en rekja má 2,2% tekna íbúa á höfuðborgarsvæðinu til sjávarútvegs meðan hlutfallið er alls staðar annars staðar meira en 10%. „Á Vestfjörðum standa fiskveiðar og fiskvinnsla undir hátt í þriðjungi af atvinnutekjum,“ segir Friðrik Þór Gunnarsson hagfræðingur í grein á vef SFS.

„Þegar litið er til einstakra sveitarfélag er hlutfallið hæst í Vestmannaeyjum, 43,6%, og svipað á Snæfellsnesi og í Grindavík. Meðaltalið á landsbyggðinni er 16,6%, eða næstum því átta sinnum hærra en það er á höfuðborgarsvæðinu.“

Samkvæmt frumvarpinu hækkar afsláttur útgerða af fyrstu 4,5 milljónum í veiðigjaldi úr 20% í 30% af fyrstu 5,5 milljónunum. Næstu 4,5 milljónir á eftir hafa fengið svo 15% afslátt en frumvarpið átti að breyta því í 20% af næstu 5,5 milljónum þar á eftir.

Fikifréttir hafa fjallað ítarlega um málið, en þó afslættinum sé ætlað að hjálpa smæstu útgerðunum sérstaklega telja smábátasjómenn ekki nóg gert meðan mesta lækkunin hefði í krónum talið farið til stærstu útgerðanna. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi töldu jafnframt að ganga hefði mátt lengra.

Framlengja núverandi lög til áramóta

„Ég hef lagt það upp þannig að ef veiðigjöldin og innheimta þeirra verði bara óbreytt frá því sem nú er til ársloka,“ segir Katrín.

„Stjórnarandstaðan andmælti því að þetta frumvarp kæmi svona seint fram og töldu að það þyrfti meiri tíma til að ræða þær breytingar. Það var okkar niðurstaðan að þetta væri réttmæt gagnrýni. Ég lagði því til að við myndum halda þessu óbreyttu til áramóta, að við myndum taka þessa umræðu næsta haust. Hins vegar gerði ég það að skilyrði að við myndum ná saman um að þinghaldi gæti lokið á næstu dögum eins og ætlunin var í starfsáætlun og það náðist í gær.“

Er reiknað með að þingstörfum ljúki á næstu dögum, og búið er að semja um afgreiðslu helstu mála milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þar á meðal verði afgreitt frumvarp um Íslandsstofu þar sem deilt var um skipun stjórnar stofnunarinnar. Einnig ný persónuverandarlög og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára.