SaltPay, nýr eigandi Borgunar, hefur ákveðið að fækka fólki sem starfar fyrir fyrirtækið hér á landi. Ekki er tekið fram hversu mörgum verður sagt upp en ákvörðunin er sögð ná til „talsverðan“ fjölda starfsfólks, en þó aðallega þá sem störfuðu við að þróa og viðhalda eldra greiðslukerfi Borgunar, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

SaltPay keypti Borgun í júlí á síðasta ári og frá þeim tíma hefur staðið yfir rýning á öllum kerfum fyrirtækisins og einnig verið hafin þróun á nýjum lausnum.

Sjá einnig: Hlutafé SaltPay aukið um 60 milljarða

„Greiðslukerfi Borgunar var í grunninn byggt á kerfi sem orðið er hátt í fjörutíu ára gamalt og ljóst var frá upphafi að því þyrfti að skipta út. Sú vinna hefur staðið yfir og er komin á það stig að ekki verður þörf fyrir allt það starfsfólk sem sinnt hefur gamla kerfinu. Af þessu leiðir að fækkun verður á hugbúnaðarsviði, auk þess sem aukin sjálfvirkni og bætt tækni hefur áhrif til fækkunar á öðrum sviðum. Rekstur fyrirtækisins hefur verið þungur á síðustu árum en þær aðgerðir sem gripið hefur verið til munu þýða að ekki þurfi að koma til frekari uppsagna,“ segir í tilkynningunni.

Í lok nóvember var tilkynnt um að 29 starfsmenn borgunar hefði verið sagt upp sem hluti af „umbreytingu Borgunar yfir í þjónustumiðað tæknifyrirtæki“. Fyrirtækið hafði á mánuðunum á undan ráðið 60 nýja starfsmenn . Síðasta sumar var tólf starfsmönnum úr æðsta stjórnendalagi Borgunar sagt upp.